Tröllaheimar

Um starfsemi frístundaheimila

Hlutverk frístundaheimila er að bjóða upp á fjölbreytt tómstundastarf fyrir börn á aldrinum 6-9 ára eftir að kennslu lýkur. Frístundaheimili hafa mikil áhrif á félagsþroska barna og eru vettvangur þar sem þau æfa sig í vináttu og samskiptum. Börnin læra að virða hvert annað og læra þar með að allir hafa sín séreinkenni og þurfa að hafa ákveðið svigrúm. Frístundaheimili gefa börnum fastan samastað fyrir starf og leik og er staður þar sem börn eru höfð í fyrirrúmi. Þar er hlustað á þau, talað við þau og ekki síst er pláss fyrir tilfinningar þeirra á frístundaheimilinu.Lögð er áhersla á að þroska félagslega færni í samskiptum í gegnum leik og starf sem og virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfi sínu. Frístundaheimilið leitast við að viðhafa lýðræðislega starfshætti, efla hæfni barnanna til að móta sér sjálfstæðar skoðanir og hafa áhrif á umhverfi sitt og aðstæður.Leitast er við að veita öllum börnum tækifæri til að taka þátt í frístundastarfi óháð getu þeirra, þroska eða fötlun þar sem sérstök áhersla er lögð á að koma til móts við alla.

Markmið

Markmið frístundaheimila er að hvert barn fái að njóta sín og þroskast í umhverfi sem einkennist af hlýju, öryggi og virðingu. Lögð er áhersla á að efla félagsþroska hvers barns og virðingu þess fyrir sjálfu sér, öðrum og umhverfi sínu. Við teljum mikilvægt að efla sjálfstæði og sjálfsmynd hvers barns og gera því kleift að kynnast eigin möguleikum og nýta hæfileika sína. Þá er markmið með starfsemi frístundaheimila að yngstu börn grunnskólanna hafi í boði öruggt umhverfi til að dvelja í eftir skóla með aðstöðu til örvandi og skemmtilegs frítímastarfs. Einnig er stefnt að því að veita börnum og foreldrum þeirra heildstæða þjónustu. Barnið og vellíðan þess er þungamiðjan í daglegu starfi.

Leiðir að markmiðum

Við lítum svo á að barnið þroskist og læri með því að taka virkan þátt í daglegu starfi frístundaheimilisins: Í útivistinni, í frjálsa leiknum og í skipulögðu hópastarfi. Við teljum að börn læri best með því að framkvæma (reynslunám/learning by doing) og að allir séu góðir í einhverju - enginn er góður í öllu. Eftirfarandi atriði lýsa vel nálgun okkar til að vinna að markmiðum starfsins:
 • Notum virka hlustun og sýnum börnunum hlýju og tillitssemi.
 • Leggjum áherslu á frjálsan leik, val barnanna og barnalýðræði.
 • Styrkjum félagslega stöðu barna með uppbyggilegri fræðslu og frístundastarfi.
 • Bjóðum upp á fjölbreytt starf þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi, s.s. föndur, myndlist, leiklist, tónlist, íþróttir og útiveru, vettvangsferðir og sögustundir.
 • Gefum börnum tækifæri og vettvang til að framkvæma hugmyndir sínar og tryggja þannig að styrkleikar og hæfileikar hvers og eins fái að njóta sín.
 • Beitum aðferðum barnalýðræðis og höfum börnin með í ráðum við gerð dagskrár og val á viðfangsefnum og ýtum þannig undir virkni, gagnrýni og skapandi hugsun.
 • Höfum yfirsýn og eftirlit með leiksvæðum og tryggjum öryggi og vellíðan barnanna.
 • Leitumst eftir samstarfi við íþrótta- og tómstundastarf sem í boði er í Hafnarfirði.

Hlutverk verkefnastjóra

Verkefnastjóri stýrir faglegu starfi frítundaheimilis. Hann ber ábyrgð á öryggi og vellíðan barna og starfsfólks, skapar andrúmsloft sem einkennist af gagnkvæmri virðingu, jákvæðum samskiptum og lýðræðislegum vinnubrögðum.Verkefnastjóri á hverri starfsstöð tómstundamiðstöðva ber ábyrgð á starfi frístundaheimilisins. Áhersla er lögð á metnaðarfullt starf með áherslu á lýðræði og skipulagða dagskrá, sem inniheldur uppeldis- og menntunargildi sem taka mið af aldri barna og þroska. Jafnframt leggur verkefnastjóri áherslu á að öll börn geti fundið eitthvað við sitt hæfi og að þau séu í umhverfi þar sem hver og einn fær að njóta sín.Verkefnastjóri leggur auk þess áherslu á góð, upplýsandi og ánægjuleg samskipti við foreldra. Leitast er við að foreldrar hafi greiðan aðgang að upplýsingum og geti verið í sambandi við starfsfólk varðandi starfsemina og líðan barna sinna. Verkefnastjóri velur þá leið sem hann telur besta hverju sinni til að vera í samskiptum við foreldra, hvort sem um er að ræða málefni einstaklinga eða hópa.Verkefnastjóri ber ábyrgð á utanumhaldi á skráningu barna sem eru í frístundaheimilinu og afskráningar ásamt öðru formlegu utanumhaldi og starfsmannamálum almennt í samstarfi við skólastjórnendur. Verkefnastjóri tryggir að upplýsingaflæði til barna, unglinga, foreldra og samstarfsaðila sé virkt. Hann sér um að auglýsa starfsemina innan skóla, uppfærir heimasíðu og sinnir öðrum rafrænum samskiptum. Hann ber ábyrgð á að starfsmannahandbók sé á staðnum og að starfsmenn fái viðeigandi fræðslu.

Hlutverk starfsmanna

Lögð er áhersla á að ráða til sín starfsmenn í frístundaheimilin sem hafa reynslu, áhuga og hæfni í að starfa með börnum. Starfsmenn í frístundaheimilum þurfa auk þess að vera sterkir í mannlegum samskiptum, vera fyrirmyndir í starfi sem og utan þess. Enn fremur er lögð áhersla á að starfsmenn frístundaheimila hafi fjölbreyttan og ólíkan bakgrunn.Nýjum starfsmönnum er boðið upp á markvissan stuðning og þjálfun auk þess að allir starfsmenn taka þátt í símenntun til að efla þekkingu þeirra, frumkvæði, ábyrgð og sjálfstæði þeirra í starfi. Á hverjum starfsstað er tiltæk starfsmannahandbók þar sem fram koma verklagsreglur frístundaheimilisins.Starfsmönnum frístundaheimila ber skylda samkvæmt 17. gr barnaverndarlaga að tilkynna ef einhver grunur er um að barn er líkamlega eða andlega vanrækt, hafi orðið fyrir líkamlegu, andlegu eða kynferðislegu ofbeldi að einhverju tagi.Starfið í frístundaheimilum byggist alltaf á þeim hæfileikum sem starfsfólkið býr yfir hverju sinni. Starfsfólk er hvatt til að koma með eigin hugmyndir að verkefnum og viðfangsefnum þannig að boðið sé upp á fjölbreytt og skapandi starf. Starfsfólkið tekur þátt í skipulagningu og framkvæmd fagstarfs í samstarfi við verkefnastjóra.

Hlutverk foreldra

Lögð er áhersla á að eiga gott samstarf við foreldra/forráðamanna og tekið er vel á móti athugasemdum og ábendingum. Foreldrar geta komið á framfæri óánægju/ánægju eða hvað sem er vegna starfsins til fagstjóra, skólastjórnenda og/eða verkefnastjóra.Foreldrar bera ábyrgð á skráningu barna í frístundaheimilið. Mikilvægt er að foreldrar/forráðamenn hafi samband við starfsfólk frístundaheimila ef breyting verður á mætingu, t.d. vegna veikinda, leyfa eða að heimferðatími breytist. Leyfilegt er að senda barnið með skrifleg skilaboð eða senda skilaboð í tölvupósti til verkefnastjóra fyrir hádegi starfsdags ef barn kemur í skólann en þarf ekki að koma í frístundaheimilið. Munnleg skilaboð frá börnum eru ekki tekin gild. Hafa má samband við frístundaheimili símleiðis eða senda tölvupóst á verkefnastjóra.

Innrastarf

Innra starf frístundaheimilana byggist á vali, hópastarfi eða smiðjum og útiveru. Einnig er boðið upp á síðdegishressingu á miðjum degi.Þó að hefðbundin kennsla fari ekki fram innan veggja frístundaheimilisins, þá er ljóst að þátttaka barnsins í fjölbreyttu starfi í frístundaheimilinu eykur hæfni þess á ólíkum sviðum og getur styrkt skólagöngu og þroska þess. Óformlegt nám fer fram á frístundaheimilum og fer það að mestu fram í frjálsum leik og vali barnanna, en einnig í hópastarfi eða smiðjum. Hefðbundin dagskrá felst í hæfilegu jafnvægi á milli skipulagðrar dagskrár og frjáls leiks, sem er ekki síst mikilvægt fyrir yngstu börn grunnskólans.Starfsmenn skipuleggja jafnan vikuáætlun þar sem kemur fram hvaða hópastarf/val er í boði á hverjum degi. Leitast er við að hafa börnin með í ráðum við gerð dagskrár.

Val

Þegar val er í boði þá hafa starfsmenn gert tilbúnar stöðvar sem börnin mega leika sér á eða undirbúið hópastarf eða smiðjur. Börnin velja sér svo þá stöð sem þau hafa mestan áhuga á að vera í, sumar stöðvarnar eru bara með hámarksfjölda og því getur það komið fyrir að börnin komist ekki í það sem þeim langar mest

Hópastarf eða smiðjur

Skipulagt hópastarf eða smiðjur er starf sem er leitt af starfsmanni, s.s. matreiðsla, leikir í sal og föndur í listasmiðju. Hópastarf eða smiðjur geta verið annars vegar opið og hins vegar stýrt. Opið hópastarf eða smiðja felst í því að börnin velja sjálf hvort þau taka þátt í tilteknu vali sem starfsmaður býður upp á. Sá hópur getur verið breytilegur frá degi til dags, eftir því hvað er í boði og áhuga barnanna hverju sinni. Starfsmaður verður að ná til barnanna og gera hópastarfið áhugavert – á vissan hátt má segja að hér gildi lögmál framboðs og eftirspurnar. Stýrt hópastarf felst í því að starfsmenn raða börnum niður í hópa fyrirfram, til dæmis eftir aldri eða kyni. Stýrt hópastarf er mjög gagnlegt þegar vinna á með ákveðin þemu eða tryggja að öll börnin taki þátt í tilteknum verkefnum.
Dæmi um hópastarf/smiðjur:
 • Leiklistarsmiðjur
 • Myndlistarsmiðjur
 • Sögugerð
 • Tónlist
 • Ævintýrasmiðja
 • Vísindasmiðja
 • Íþróttahópur
 • Matreiðsla
 • Fjölmiðlahópur

Samskipti við börnin

Í starfi frístundaheimilanna er stuðst við aðferðir SMT-skólafærni í samskiptum til að efla jákvæð samskipti. Í stað þess að einblína á það neikvæða er hið jákvæða umbunað óumbeðið og er heildrænn stuðningur við jákvæða hegðun. Við gefum umbunartákn fyrir óumbeðna jákvæða hegðun og söfnum umbunartáknum, t.d. upp á vegg eða í krukku. Þegar markmiði er náð er veitt umbun sem ákveðin er í samráði við börnin, t.d. bjóða upp á bíósýningu, búningadag, náttfatadag, dótadag o.s.frv.Í starfi með börnum er mikilvægt að hafa skýran ramma, nokkrar fáar en góðar reglur sem tryggja öryggi og vellíðan barnanna. Stuðst er við skólareglur grunnskólans. Jákvæður agi felst í því að hvetja barnið til athafna sem styrkja jákvæða sjálfsmynd og efla félagslega færni þess. Markmið frístundaheimila er að forðast neikvæðan aga, sem byggist á boðum og bönnum, og efla jákvæðan aga sem er fyrirbyggjandi og stuðlar að bættum samskiptum. Hlutverk starfsmanna er því ekki síst að hafa vakandi auga með barnahópnum og aðstoða börn við að leiðrétta óæskilega hegðun áður en í óefni er komið. Komi upp vandamál í samskiptum barns við önnur börn eða við starfsmenn er mikilvægt að bregðast skjótt við og ræða málið við verkefnastjóra frístundaheimilis. Jákvæð og opin samskipti eru góð leið til að fyrirbyggja misskilning og stuðla að betri líðan barnsins á frístundaheimilinu. Ávallt er haft samráð við foreldra ef að alvarleg eða ítrekuð agabrot eiga sér stað.Tómstundamiðstöðin í Áslandsskóla | Kríuás 1, 221 Hafnarfjörður
Félagsmiðstöðinn Ásinn | Sími 585 4611 | Netfang asinn@hafnarfjordur.is

Frístundarheimilið Tröllaheimar |Sími 585 4617 | Netfang trollaheimar@hafnarfjordur.is